Hafið, fjaran og fólkið : menningararfleifð, tækifæri og ógnir sjávarbyggða

Gjáin - íþróttamiðstöð Grindavíkur, laugardaginn 21. maí

Kl. 11:00 Kynning á Vitafélaginu – íslensk strandmenning og Nordisk kustkultur
Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins
kl. 11:30 Fornleifar á Reykjanesi, minjar til sjávar og upp til heiða
Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur
kl. 12:30 Hlé
Kl. 12:45 Reykjanes Geopark – uppbygging til framtíðar
Þuríður Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness

kl. 13:45 Verbúðir í hundrað ár
Haukur Aðalsteinsson

Fundarstjóri: Þorsteinn Gunnarsson,
sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur

Minja-og sögufélag Grindavíkur , Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar

 

 

Lengi hefur það verið draumur Vitafélagsins að sjá ljóshús á Garðskagavita sem hefur staðið höfuðlaus frá árinu 1944 þegar yngri en viðameiri viti tók við upprunalegu hlutverki hans, en þá var ljóshúsið fjarlægt af gamla vitanum.

Þetta mannvirki lætur kannski ekki mikið yfir sér en á sér þess merkari sögu. Vitinn var reistur árið 1897, hannaður af starfsmönnum dönsku vitamálastofnunarinnar.

Þyrla með ljóshús vitans

Vitinn var í hópi fyrstu vita landsins sem voru friðaðir en það var gert af  menntamálaráðherra 1. desember 2003. Þessi bygging er ekki einungis merkileg sökum friðlýsingar heldur einnig fyrir þær sakir að þetta er næstelsti uppistandandi viti landsins og næstelsta steinhús landsins.

Vitinn var í hópi fyrstu vita landsins sem voru friðaðir, en það var gert af menntamálaráðherra 1. desember 2003. Þessi bygging er ekki einungis merkileg sökum friðlýsingar heldur einng fyrir þær sakir að þetta er næstelsti uppistandandi viti landsins og næstelsta steinhús landsins. Einungis Dalatangaviti er eldri – eini viti landsins sem byggður var af einkaaðila, en það gerði norski kaupmaðurinn Otto Wathne og íbúðarhúsið á Sveinatungu í Borgarfirði er elsta steinhús landsins.

Gamli vitinn með ljóshúsi

Þó svo að vitasaga heimsins sé ævaforn og  vitinn í Alexandríu í Egyptalandi hafi verði talinn eitt af sjö undrum fornaldar er vitasaga Íslands einnig mjög merk, meðal annars fyrir þær sakir hversu ung hún er. Myrkur og samskiptaleysi var allsráðandi og á einokunartímanum kom varla nokkur sála til þessa lands nema yfir björtustu sumarmánuðina.

Þegar þing kom saman í Lærða skólanum í Reykjavík árið 1875 er hægt að segja að vitasaga Íslands hafi hafist, og fyrsti vitinn var síðan reistur á Valahnjúk á Reykjanesi árið 1878. Vitinn hafði ekki einungis áhrif á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en með honum kom líka tækni- og iðnþekking þannig að í raun hófst iðnbyltingin á Íslandi með tilkomu hans.

Vitafélagið - íslensk strandmenning  er afar stolt af því að sjá þennan aldna höfðinga loks geta horft út yfir Atlantsála og vill þakka öllum þeim sem komu að þessu verki með okkur. Ber þar að nefna Menningarráð Suðurnesja, Sveitarfélagið Garð, Vegagerðina, Minjastofnun/Húsafriðunarnefnd, Málningu sem gaf okkur málningu á ljóshúsið, Stálorku í Hafnarfirði sem annaðist þessa listasmíði, Björgunarsveitina og Landhelgisgæsluna sem kom svo ljóshúsinu á sinn stað.

Lið

Að lokum ber svo að nefna þátt Magnúsar Skúlasonar, sem var forstöðumaður Húsafriðunarnefndar þegar fyrstu vitar landsins voru friðaðir og hefur nú haldið um taumana við þetta verkefni félagsins.

Kærar þakkir öll sem eitt – án ykkar hefði þetta ekki verið hægt

Svo vonum við að sem flestir komi til að njóta þessa sögufræga mannvirkis og að það verði til að minna landsmenn á að virða strandmenninguna og vernda enn frekar með nýtingu og nýsköpun.

Sjá umfjöllun í fréttum RÚV um málið, 15. apríl.

Ljóshúsið var sett á vitann 22. apríl, annan dag sumars, eins og lesa má í umfjöllun RÚV.

 

 

 

Strandmenning – auður og ógnir

Miðvikudaginn 6. apríl  2016, kl. 20.00

 

Í vetur er yfirskrift dagskrár Vitafélagsins Strandmenning – auður og ógnir. Fengnir eru sérfræðingar sem fjalla um fornleifar og rannsóknir á strandminjum, líka þeim sem eru að hverfa vegna ágangs sjávar og veðra. Hins vegar er fjallað um nýtingu strandarinnar og þess sem við sjóinn finnst til uppbyggingar og atvinnusköpunar.

Næsti fræðslufundur er helgaður Snæfellsnesi.

Verbúð

Lilja Björk Pálsdóttir:  Gufuskálar á Snæfellsnesi: Verstöð í vanda

Hin forna verstöð á Gufuskálum er á norðanverðu Snæfellsnesi en þar fór fram björgunarrannsókn á síðmiðaldaminjum á árunum 2008-2015. Minjarnar eru friðlýstar en vegna mikils sjávar- og vindrofs var ráðist í uppgröft á verbúðum sem voru í mikilli hættu á að hverfa.

Alþjóðlegur rannsóknarhópur á sviði fornleifafræði, jarðfornleifafræði og dýrabeinafræði tók þátt í rannsókninni þar sem gerðar voru auk uppgraftar á verbúð, fornleifaskráning, yfirborðsmælingar, könnunarskurðir, margskonar sýnatökur og loftmyndatökur með flugdreka og dróna. Fjallað verður um rannsóknina og helstu niðurstöður sem komnar eru en mikil vinna er framundan við úrvinnslu gagna, enda varðveisla minja á Gufuskálum einstaklega góð.

Lilja Björk Pálsdóttir er fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og hefur starfað þar frá árinu 2003. Hún hefur unnið við og stjórnað margvíslegum fornleifarannsóknum bæði hér heima og erlendis á minjum sem eru allt frá nýsteinöld til nútímaminja. 

Facebook síða Gufuskálarannsóknar: https://www.facebook.com/GufuskalarArchaeology/

Gufuskálar

Ragnhildur Sigurðardóttir:  Andi Snæfellsnes - auðlind til sóknar. 

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður árið 2014 af sveitarfélögum og félagasamtökum í atvinnulífi á Snæfellsnesi. Hlutverk hans er að vera vettvangur fjölþætts samstarfs með áherslu á að nýta sérstöðu svæðisins við uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs og þjónustu. Svæðisgarðurinn á m.a. að vera hreyfiafl, vernda og nýta náttúru- og menningararf og miðla upplýsingum.

Ragnhildur Sigurðardóttir framkvæmdastjóri er með M.Sc. í umhverfisfræði. Hún hefur stýrt margvíslegum þróunar-og nýsköpunarverkefnum tengdum fræðslu og umhverfismálum.

Heimasíða Svæðisgarðsins er: http://www.snaefellsnes.is/

Arnarstapi

Arnarstapi 2

Staður: Sjóminjasafn Reykjavíkur við Grandagarð

Tími: 6. apríl 2016, kl. 20.00

 

Nánari upplýsingar veitir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins  s. 823 4417

 

 

Spegill fortíðar – silfur framtíðar


Þuríður Elísa Harðardóttir: Strandminjar við Austfirði
Þuríður Elísa er nýtekin við starfi minjavarðar á Austurlandi. Hún mun kynna merkustu strandminjar á Austfjörðum, svo sem Gautavík við Berufjörð, Seley við Reyðarfjörð og Naustin í Papafirði.

Pétur Gunnarsson: Frakkar á Íslandsmiðum
Pétur Gunnarsson, rithöfundur, flytur fróðleik um veiðar Frakka hér við land sem hófust í byrjun 16. aldar og stóðu yfir í um 400 ár. Þetta var saga mikilla mannrauna og skipstapa, en jafnframt saga ágóðasamra útgerðarmanna og þeirra sem hæst voru settir í þeim samfélögum þaðan sem skipin voru gerð út frá. Leiddar hafa verið að því líkur að einvörðungu síðustu 100 ár veiðanna hafi um eða yfir 400 skútur farist hér við land við þessar veiðar og með þeim á fimmta þúsund manns.

Þorsteinn Bergsson: Endurbygging Franska spítalans

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segir frá endurbyggingu Franska spítalans. Það verkefni þróaðist frá því að fyrst var horft til þess að endurbyggja spítalann úti á Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð yfir í að flytja spítalann inn að Búðum og endurbyggja ekki bara hann, heldur Læknishúsið, Sjúkraskýlið, Kapelluna og Líkhúsið. Til viðbótar er Minjavernd nú að reisa á staðnum nýbyggingu sem fellur að þeim fyrri til að styrkja rekstur húsanna. Í öllum þessum húsum hefur Minjavernd nú komið fyrir í samstarfi við Fjarðabyggð sýningunni Frakkar á Íslandsmiðum. Þetta hefur þróast upp í að vera stærsta verkefni Minjaverndar á landsbyggð og jafnframt stærsta verkefni Minjaverndar sem félagið hefur staðið eitt að.

Staður: Sjóminjasafn Reykjavíkur við Grandagarð
Tími: 2. mars 2016, kl. 20.00

 

 

Nordisk kustkultur í Færeyjum 7.-10. júlí 2016

Fulltrúar norrænu strandmenningarfélganna hittust í Færeyjum dagana 19.-22. febrúar til að undirbúa Norrænu strandmenningarhátíðina/Nordisk kustkultur sem haldin verður í Vági á Suðuroy dagana 7.-10. júlí.

Nordisk kustkultur

Þeir Íslendingar sem vilja taka beinan þátt í hátíðnni er bent á að þeir verða að skrá sig hjá Vitafélaginu svo unnt sé að útvega þeim sölu-/sýningartjald og gistiaðstöðu. Ef þú ætlar að sigla þurfum við allar upplýsingar um bátinn.

Vinsamlegast hafið samband við Sibbu: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 8234417

Nánari upplýsingar má fá á vefslóðinni Grindabátar.

Vágur Suðuroy

 

 

 

Miðvikudaginn 3. febrúar 2016, kl. 20.00 

Í vetur verður yfirskrift dagskrár Vitafélagsins Strandmenning – auður og ógnir. Fengnir eru sérfræðingar sem fjalla um fornleifar og rannsóknir á strandminjum, líka þeim sem eru að hverfa vegna ágangs sjávar og veðra. Hins vegar er fjallað um nýtingu strandarinnar og þess sem við sjóinn finnst til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Næsta fræðslukvöld verður helgað Siglufirði.

Síldarball á Akureyri - ljósmyndari Björn Valdimarsson

Birna Lárusdóttir:  Fornleifar á Siglunesi við Siglufjörð
Birna  Lárusdóttir er fornleifafræðingur sem hefur um árabil starfað við fornleifaskráningu hjá Fornleifastofnun Íslands og vann meðal annars að slíku verki í Siglufirði og nágrenni.  Sömuleiðis stóð hún ásamt fleirum að fornleifakönnun á Siglunesi. Hún er ritstjóri Árbókar Hins íslenska fornleifafélags og vinnur einnig að verkefni um örnefni.  Hún er aðalhöfundur bókarinnar Mannvist - sýnisbók íslenskra fornleifa.

Í erindinu mun Birna segja frá niðurstöðum fornleifarannsókna á verstöðinni á Siglunesi sem fram fóru á árunum 2011-2013, en þar brýtur sjórinn sífellt af rústum á ströndinni. Velt verður upp spurningum um til hvaða aðgerða er hægt að grípa á mikilvægum minjastöðum þar sem eyðilegging blasir við en einnig hvernig slíkir staðir geta skipt máli fyrir samfélagið og jafnvel fyrir ferðamennsku.

Róbert Guðfinnsson:  Strandbyggðir nýju kynslóðarinnar

Róbert Guðfinnsson er landsþekktur athafnamaður sem hefur lagt mikið til samfélagsins á Siglufirði. Hann hefur sérstakar hugmyndir um möguleika minni byggða til að skapa sér sérstöðu með störfum fyrir langskólamenntaða einstaklinga. 

Í erindinu mun Róbert tala út frá reynslu sinni sem stjórnanda í litlu samfélagi. Hvernig breyting á viðhorfi til lífsskilyrða hefur haft á þróun byggða og hvernig reynt er að breyta áherslum og  samsetningu atvinnulífsins með nýrri framtíðarsýn.

Staður: Sjóminjasafn Reykjavíkur við Grandagarð

Tími: 3 febrúar 2016, kl. 20.00

Nánari upplýsingar veitir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins  s. 823 4417.

 

 

Óskum eftir myndefni sem tengist vitum, byggingu þeirra, sjósköðum, strandmenningu, björgun úr hafi eða mannlífi við sjávarsíðuna.

Vitinn í Kálfshamarsvík

Íslenska vitafélagið vinnur nú að gerð heimildarmyndar um sögu og hlutverk vitans ásamt kvikmyndargerðarnönnunum Einari Þór Gunnlaugssyni og Dúa Landmark. Við leitum að myndefni; ljósmyndum, lifandi myndefni; 8mm eða 16mm sem nýst getur okkur við gerð myndarinnar. Allar ábendingar um efni vel þegnar. Frekari upplýsingar veitir Sibba í sibba.arna@gmail eða í síma 8234417.

 

 

 

Fræðslufundir Vitafélagsins hefjast 13. janúar 2016 með fræðslufundi sem haldinn verður í Sjóminjasafni Reykjavíkur kl. 20.00.  Á dagskrá verða tvö fræðsluerindi þar sem sjónum er beint að minjum við sjávarströndina. Eins og undanfarið verður fluttur fyrirlestur um rannsóknir á strandmenningu og/eða fornleifum, ofan sjávar og neðan og síðan er fjallað um þær dýrmætu fornleifar sem hafið og hirðuleysið er að eyðileggja.

 

1.  Strandminjar í hættu

Oddgeir Isaksen er fornleifafræðingur og starfaði um árabil við rannsóknir hjá Fornleifastofnun Íslands. Í dag gegnir hann stöðu verkefnastjóra skráningarmála hjá Minjastofnun Íslands, en meðal verkefna á hans könnu eru minjar sem eru í hættu af náttúrunnar völdum og eru þar með taldar minjar meðfram strandlínu Íslands.

Fornleifar eru mikilvægar frumheimildir um sögu lands og þjóðar, ekki síður en fornritin og því er mikilvægt að hér sé rekin markviss minjavernd til að stemma stigu við eyðingu þessa heimildaflokks. Á undanförnum árum hafa ýmsir, bæði fræðimenn og áhugamenn um fornleifar, vakið athygli á eyðingu minja meðfram strandlínunni af völdum ágangs sjávar, sem virðist vera að aukast ef eitthvað er. Hefur verið kallað eftir mótvægisaðgerðum af hálfu yfirvalda til að stemma stigu við þessari geigvænlegu þróun. Oddgeir mun greina frá áætlunum um slíkar aðgerðir sem vonast er til að hægt verði að hrinda í framkvæmd á næstu árum, þar sem m.a. er ætlunin að virkja krafta áhugamanna í héraði við eftirlit með minjunum.

 

2. Menningarlegt stórslys

Eyþór Eðvarðsson er áhugamaður um sögu þjóðarinnar og fornleifar.  Hann er formaður og einn af stofnendum Fornminjafélags Súgandafjarðar og hefur mikinn áhuga á því að verja þær strandminjar sem í dag eru að skemmast vegna ágangs sjávar. Hann hefur búið til fjölmörg myndbönd um fornleifarannsóknir á Íslandi og einnig um sjávarrof og fornminjar m.a. um Brunnaverkstöðina, Fjallaskaga, Hringsdal, Hænuvík, Breiðuvík, Keravík, Ingjaldssand, Gufuskála og Siglunes og Seley.  Eyþór stóð ásamt fleiri aðilum að ráðstefnu um þetta efni í vorið 2015.

Í erindinu mun hann segja frá ferð sem farin var síðastliðið sumar á flestar af þeim gömlu þekktu verstöðvum sem eru í kringum landið. Þar eru víða miklar fornminjar enda sýna rannsóknir að sjósókn var stunduð frá þessum verstöðum frá landnámi.  Ástand þessara fornminja okkar Íslendinga er vægast sagt skelfilegt og þær eru að eyðileggjast.  Við sem þjóð verðum að bregðast hratt við ef við ætlum ekki að láta þær eyðileggjast í briminu.  Landsig er vel greinanlegt á þessum verstu rofastöðum og brimið heggur í minjarnar þegar veður eru slæm.  Sýndar verða ljósmyndir af um 15 stöðum á landinu þar sem forfeður og formæður okkar þjóðar sóttu sjóinn.

Nánari upplýsingar veitir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins s. 823 4417.

 

 

Vitafélagið býður til fræðsluerindis 

Vitafélagið hefur nú sína hefðbundnu fræðsludagskrá með erindi í Sjóminjasafni Reykjavíkur við Grandagarð.  Í vetur verður yfirskrift dagskrár Strandmenning – auður og ógnir. Fengnir eru sérfræðingar sem fjalla um fornleifar og rannsóknir á strandminjum, líka þeim sem eru að hverfa vegna ágangs sjávar og veðra. Hins vegar er fjallað um nýtingu strandarinnar og þess sem við sjóinn finnst til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Fjallað verður um alla landshluta og byrjað á Reykjanesi.

Miðvikudaginn 4. nóvember kl. 20.00

 

Ragnheiður Traustadóttir:  Fornleifar á Reykjanesi, Minjar til sjávar og upp til heiða.

Ragnheiður Traustadóttir er fornleifafræðingur og stýrði m.a. uppgreftrinum á Hofsstöðum. Árið 2012 hlaut hún viðurkenninguna Garðasteininn sem hún fékk  fyrir framúrskarandi fagmennsku í sínum störfum, einkum í tengslum við rannsóknir tengdum Garðabæ og umhverfi.

Ragnheiður fjallar um fornleifar á Reykjanesskaganum sem einstaka auðlind um sögu svæðisins frá landnámi fram á okkar daga. Þar er að finna merkilegar minjar, mismunandi vel varðveittar, um sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald, réttarsögu o.fl. Víða hafa minjar horfið og eru óðum að hverfa vegna
landbrots á svæðinu og framkvæmda. Er því brýnt að rannsaka og skrá þær áður en minjastaðirnir hverfa og verða þöglir um söguna.

 

Eggert Sólberg Jónsson: Uppbygging áfangastaða í Reykjanes Geopark

Eggert er  með meistarapróf í þjóðfræði og sat m.a. í undirbúnings- og verkefnahópi um Kötlu jarðvang  og starfaði sem forstöðumaður Kötluseturs. Eggert  hefur starfað sem verkefnastjóri Reykjanes Geopark síðan árið 2012.

Eggert fjallar um Reykjanes Geopark og m.a. mun hann segja frá  á nýlegri alþjóðlegri  viðurkenningu þessa jarðvangs, uppbyggingu áningarstaða á næstu árum, deiliskipulagsvinnu fyrir Reykjanesvita og nágrenni auk mikilvægi strandmenningar fyrir svæðið.

 

Nánari upplýsingar veitir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins  s. 823 4417

Ragnheiður Traustadóttir: 699 8256

Eggert Sólberg Jónsson: 865 0023

 

 

Vitafélagið - íslensk strandmenning heldur 2015-2016 röð fyrirlestra undir heitinu „Strandmenning Íslands - auður og ógnir.“

Fyrsti fyrirlesturinn verður 4. nóvember og sá síðasti 6. apríl. Þeir eru allir í Sjóminjasafni Reykjavíkur við Grandagarð.

Fyrst ber þó að nefna að félagið tekur þátt í málþingi um sjókonur á Stokkseyri 10. október og málþinginu „Hafið, fjaran og fólkið“ á Patreksfirði 17. október, sem lesa má nánar um hér að neðan. Í maí heldur síðan félagið vorþing í Vestmannaeyjum.

Dagskrá vetrarins er í viðhengi hér.

 

 

Undirbúningur er hafinn að stofnun félags sem heitir Strandminjar í hættu. Nokkrir úr Vitafélaginu hittu félaga úr þessum samtökum og eru byrjuð að undirbúa samvinnu varðandi dagskrár næsta haust.

Þau eru með síðu á Facebook.

StrandminjarVitafelag

Sameiginlegur fundur Vitafélagsins og áhugamanna um Strandminjar þar sem samvinna var rædd

 

More Articles...

  1. Guðjón Ó
  2. Félagið

TENGLAR

 

HAFA SAMBAND

 

GALLERÍ

 

SÖLUVARA

This is a custom html module. That means you can enter whatever content you want. Here is the Link to the old Website

LEIT

Joomla Templates by Joomla51.com